Bretonfréttir sumarið 2019

Það er löngu tímabært að setja inn fréttir af bretonum á Íslandi. Tíminn líður hratt og landið að fyllast af flottum bretonhundum. Okkar mat er að allir veiðimenn ættu að eiga minnst einn 🙂
Vel gengur að rækta upp stofninn og fjölgunin sem varð í sumar á vegum Hrímlandsræktunar, heilir 7 hvolpar, undan Fóellu Kolku og Rypleja’s Klaka, eru allir vel heppnaðir og vonandi verðandi dugmiklar veiðiklær.
Fyrir nú utan að heilt bretongot í sumar þá eignuðumst við nýjan Íslenskan meistara: ISCh Fóellu Ösku.
Er Aska sú þriðja í röð Bretona á Íslandi sem nær þessum titli og fyrsti íslensk fæddi bretoninn sem nær þessum titli. Aska náði sér einnig í alþjóðlegt meistarastig (CACIB) og var BOB báða dagana. Enginn smá árangur hjá henni Ösku og er eigendum og ræktanda óskað til hamingju með árangurinn. Eigendur Ösku bíða nú spennt eftir nýjum fjölskyldumeðlimi sem, eins og sagt var frá áður, kemur frá Frakklandi. Í sömu ferð kemur annar frakki úr sömu ræktun sem eignast heimili hjá Byl, Stefáni og fjölskyldu. Það eru spennandi tímar framundan hjá ræktendum bretona og verður gaman að fylgjast með þessum hvolpum frá upprunalandinu.

Á sömu sýningu og Aska sótti sér stigin sem gerðu hana að íslenskum meistara hlaut Hrímlands KK Bella afbragðs árangur. Fyrri sýningardag fékk hún “Very Good” í ungliðaflokk og á sunnudegi fékk Bella “Excellent” með CK sem er glæsilegt hjá þessari ungu tík sem augljóslega ber nafnið sitt vel.
Það þarf ekki að hafa áhyggjur af gæðum bretona á Íslandi svo mikið er víst. Stofninn er í góðri uppbyggingu og hann er umfram allt annað hraustur enda er heilsufar bretona yfirleitt mjög gott. Tegundin er gömul og komin af hálfgerðum sveitahundum sem voru fyrst og síðast notaðir sem vinnuhundar af bændum á því landsvæði sem hundarnir bera nafn sitt af.

Áhugasamir um að eignast breton þurfa að vera á tánum. Þeir gæðagripir sem eru ræktaðir hér á Íslandi eru rifnir út eins og heitar lummur. En, án undanteknina fara hvolparnir á heimili þar sem þeir eru þjálfaðir upp í samræmi við veiðieðlið.
Smellið á myndina hér til vinstri til að skoða fb síðu Hrímlandsræktunar.