Bretonarnir okkar veiðprófsárið 2021

Það er ánægjulegt og heilmikil hvatning fyrir ræktendur bretona á Íslandi þegar afkvæmi skila sér í veiðipróf og ná góðum árangri. Segja má að þar með sé markmiðinu náð, ræktunarstarfið ber ávöxt. Fuglahundadeild birtir frétt á heimasíðu sinni þar sem fjallað er um stigahæstu hunda og ræktun árið 2021.

Hrímlandsræktun var stigahæsta rækun Fuglahundadeildar í unghundaflokki á árinu 2021. Það voru afkvæmi úr Hrímlandsgotninu KK2 undan Fóellu Kolku og Rypleja’s Klaka, þær Hrímlands Ronja og Hrímlands Móa, sem söfnuðu stigum fyrir Hrímlandræktunina.

Fóelluræktun var svo stigahæsta ræktun Fuglahundadeildar í opnum flokki árið 2021. Það var Fóellu Snotra sem safnaði stigum fyrir Fóelluræktun. Fóellu Snotra er sammæðra Fóellu Kolku sem þær Ronja og Móa eru undan. Þær Kolka og Snotra eru báðar undan Midtvej´s Össu sem nú er sest í helgan stein og lætur dekra við sig alla daga.

Fóelluræktun deildi þessum heiðri, að vera stigahæsta ræktun í opnum flokki, með Vatnsendaræktun (enskur pointer). Ekki slæmur félagskapur það. Til gamans eru hér nokkrar myndir af hundunum sem fréttin tengist og gaman er að skoða í samhengi við góðan árangur bretona á Íslandi á árinu 2021. Framtíðin er björt fyrir breton á Íslandi.